Skip to main content
Fréttir

Að standa við stóru orðin

By 17. júlí 2018No Comments

 

35114153 127078821513605 1277628349652402176 n

NÚ VERÐ ÉG AÐ STANDA VIÐ STÓRU ORÐIN

Ég heiti Þuríður Gunnarsdóttir og er með MND sjúkdóminn.

Ég byrjaði að finna fyrir einkennum sjúkdómsins síðari hluta árs 2016. Röddin hafði breyst, ég átti ekki eins gott með að tala og áður. Það var eins og ég gæti ekki alltaf stjórnað tungunni. Mér fannst ekki eins gott að borða og kyngingin hafði breyst. Oft stóð illa í mér og þá þurfti ég að leita á bráðavaktina og fá magaspeglun. Hendur mínar titruðu og ég átti erfitt með svefn. Ég fékk reglulega lungnabólgu og var flensusækin Þrátt fyrir margar heimsóknir til lækna á þessum tíma gátu þeir ekki fundið út hvað olli þessu.

Mér leið mjög illa andlega og átti afar erfitt með svefn. Ég var kvíðin og óróleg einkum þegar ég lá andvaka á nóttunni eða þegar ég var ein. Ég var stundum með neikvæðar hugsanir, fannst einhver fylgjast með mér eða kæmi og ræðist á mig. Þá átti ég t.d. erfitt með að fara í sturtu. Ég hætti að geta ryksugað því ég þoldi ekki hávaðann. Ég var loks send til geðlæknis og fékk alls kyns lyf en fann enga breytingu,

Eftir þrautagöngu hjá læknum var mér bent á af lækni hjá heilsugæslunni að fara til öldrunarlæknis sem ég gerði og í kjölfarið var ég lögð inn á Landakot þar sem ég fór í nokkrar rannsóknir. Upp frá því fékk ég tíma hjá taugalækni fór í enn fleiri rannsóknir og MND var svo niðurstaðan í nóvember 2017.

Hröð þróun sjúkdómsins
Nú rúmum sex mánuðum síðar er staðan sú að ég get hvorki borðað né drukkið, er komin með sondu og nota reglulega öndunarvél, hóstavél og fleiri hjálpartæki.

Fljótlega eftir að ég greindist fórum við hjónin á fundi hjá MND félaginu sem hafa gert mér gott. Það gefur mér mikið að hitta fólk sem er að ganga í gegnum svipaða hluti og þar get ég líka sótt í ýmsan fróðleik. Þaðan fer ég alltaf glöð.

Ég þarf að horfa á björtu hliðarnar
Þetta er erfiður sjúkdómur og ég er óheppin að hafa fengið hann en á sama tíma er ég svo lánsöm að eiga dásamlegan eiginmann og fjölskyldu sem hafa staðið þétt við bakið á mér. Eiginmaður minn víkur varla frá mér. Ég er líka þakklát fyrir taugalækninn minn og MND teymið á Landspítalanum sem hefur reynst mér afar vel. Ég er rúmlega sjötug og reyni í dag að horfa á björtu hliðar lífsins eins og ég prédikaði yfir strákunum mínum, tengdadætrum og barnabörnum. Nú verð ég sjálf að standa við stóru orðin.

Baráttukveðjur