Skip to main content
Fréttir

Lognið (ferðasaga)

By 1. júlí 2013No Comments

Spegillsléttur er fjörðurinn og sólin skín glatt og tveir menn eru að landa fiski úr trillu í höfninni og lognið er svo mikið að allir fánar á stöngum í bænum vefja sig sem fastast utan um flagstanginar og Kirkjufellið svo virðulegt baðað sólskini kinkar kolli til okkar vingjarnlega og bíður okkur velkomin til Grundarfjarðar er við á tveimur bílum ökum hægt inn í bæinn á leið á MND fund í Fellaskjóli og klukkan er þá nákvæmlega 13:48.

Svo ökum við upp Hrannarstíg framhjá kirkjunni og sem leið liggur að Dvalarheimilinu Fellaskjóli þar sem við núna annað sumarið í röð höldum okkar mánaðarlegan stuðningsfund fjarri okkar venjulega fundarstað í Reykjavík . Í Fellaskjóli hittum við svo fyrir félaga okkar hana Jóhönnu og Ívar mann hennar og hið fræga bökunara-veislu-gengi öðru nafni Grundarfjarðargengið því án Jóhönnu sem áður réð húsum í Fellaskjóli og hennar góða gengis hefði þetta ekki orðið að veruleika . Svo er fundurinn settur í fallegri heimilislegri setustofu í Fellaskjóli og kemur þá í ljós að margir hafa átt á okkur von og er setustofan þéttsetin og sífellt bætt við aukastólum , Formaður okkar hann Guðjón vindur ofan af málum okkar og hvað sé í bígerð og er vel hlustað og svo kemur að spurningum og eru heimamenn og íbúar í Fellaskjóli mjög áhugasamir og ekki feimnir við að spyrja né koma með tillögur og er þetta mjög ánægjulegur þéttskipaður fundur sem nær svo vel okkar rómuðu stemmingu sem við erum svo þekkt fyrir , svo las ég náttúrulega eitt ljóð er ég hafði nýlega samið og hygg ég að því hafi verið vel tekið ( ljóðið er birt hér að neðan ) . Kaffi! kaffi! loks er kaffið til og við förum þá yfir ganginn og í matsal Fellaskjóls og lítum þar augum þvílíkt veisluborð að slíku verður ekki gleymt , og svo er lagst í að gera þessum veitingum góð skil og sést það strax á tíðum ferðum brosandi gesta að veisluborðinu að þar eru góðar veitingar í boði . Formaður okkar færði svo Fellaskjóli að gjöf í þakklætisskyni fallegt Leirverk eftir Helgu Leirlistakonu fyrir almennilegheitin , og ég færði Fellaskjóli að gjöf 6 eintök af mínu síðasta litla Kvæðakveri . Allt gott tekur svo enda og er við kveðjum svo okkar góðu gestgjafa um kl 17:08 þá í sömu mund og þrír regndropar lenda á okkar nefbroddum í þessu líka fræga Grundarfjarðarlogni , og er við ökum út úr bænum þá lít ég til baka bara til að sjá hið virðulega og fallega Kirkjufell veifa okkur í kveðju skyni ,, eða svo sýndist mér í regnúðanum í afturglugga bílsins ,, . Og mun ég ekki láta mig vanta þar á fund næsta sumar ef ég þá mögulega kemst svo mikið er víst .

11 júlí  2006. Valur Höskuldsson.

         

Gjöfin.

Á hverjum morgni er ég vakna

og fram úr fer þá bíður mín þar gjöf

sem ætluð er mér , og ég sakna

þess að sendanda er eigi getið.

Og gjöfina ég opna svo smátt og smátt

yfir liðlangan yndislegan ljúfann daginn.

Á óvart kemur mér veitir styrk og mátt

góður örlátur ánægjulegur mér í haginn.

Það er mitt að kunna að njóta dagsins í dag

sem er besta gjöf hér í heimi það er klárt

Ég bergi því vel á þeim ánægjulega lífsbrag

og sendandinn er ég saknaði svo sárt ….. var auðvitað lífið sjálft.

  1. Höskuldsson.
    11.7.2006 –